Fróðleikur um heyrnina

STIKLAÐ Á STÓRU UM EYRAÐ, HEYRNINA OG HEYRNARSKERÐINGU

Eyrað er flókið og næmt líffæri sem umbreytir hljóði í taugaboð og flytur til heilans. Meginhlutverk eyrans eru skynjun, boðflutningur og úrvinnsla hljóðs. Einnig gegnir eyrað hlutverki jafnvægiskynjunar.

Eyrað er samsett úr fjölda eininga en skiptist í fjóra megin hluta; ytra eyrað, miðeyrað, innra eyrað og heyrnarbrautir.

Eyrað

YTRA EYRAÐ

Eyrnablaðkan er sá hluti eyrans sem við sjáum. Hún situr utan á höfuðinu, er fyrsti viðkomustaður hljóðsins og virkar sem eins konar trekt sem beinir hljóðinu inn í hlustina. Frá eyrnablöðkunni berst hljóðið svo um hlustina áður en það lendir á hljóðhimnunni. Hljóðhimnan situr í botni hlustarinnar og markar upphaf miðeyrans. Hún er mjög næm og hljóðbylgjur framkalla titring á himnunni. Eyrnarmergur sem myndast í hlustinni smyr hana og ver eyrað fyrir sýkingum.

MIÐEYRAÐ

Miðeyrað nær frá hljóðhimnu að kuðungi og flytur hljóð frá ytra eyra til innra eyrans. Megin uppistaða miðeyrans eru þrjú lítil bein sem mynda keðju, en þau eru; hamar, steðji og ístað. Hljóðbylgjur koma af stað titringi á hljóðhimnunni. Titringurinn flyst síðan áfram inn eftir eyranu um eyrnarbeinin þrjú. Ístaðið, sem er síðasta beinið í keðjunni, situr í glugga á kuðunginum sem þakinn er himnu.

INNRA EYRAÐ

Innra eyrað samanstendur af kuðungi, jafnvægislíffæri og heyrnar- og jafnvægistaug. Eftir að hljóðbylgjurnar hafa borist frá hljóðhimnunni til innra eyrans ferðast þær áfram innan þess. Vökvi innra eyrans hreyfist og hreyfir þúsundir örsmárra hárfrumna.
Við hreyfinguna senda frumurnar boð eftir heyrnartauginni til heyrnarstöðva heilans. Þar eru taugaboðin skynjuð sem hljóð. Verði hárfrumurnar fyrir skaða veldur það heyrnarskerðingu.

HEYRNARBRAUTIR

Fjórði og síðasti hluti eyrans eru heyrnarbrautirnar, en þær eru flókið net taugakerfa í heilanum sem eru meðal annars ábyrg fyrir stefnuheyrn, að greina tal frá óæskilegum umhverfishljóðum og skynjun tónlistar.

Heyrnarskerðing

Í flestum tilfellum þróast heyrnarskerðing á löngum tíma og því getur verið erfitt að greina einkennin. Fyrsta skrefið í meðferð heyrnarskerðingar er að gera sér grein fyrir að vandamálið sé til staðar. Oft tekur það okkur talsverðan tíma að samþykkja og/eða viðurkenna að heyrnin sé farin að skerðast. Heyrnarskerðing veldur því að geta okkar til að heyra mælt mál og önnur hljóð minnkar.

EINKENNI

Ef að þú finnur fyrir einhverjum af eftirfarandi einkennum, ættir þú að hafa samband og láta mæla heyrn þína:

 • Þér finnst aðrir muldra mikið í samræðum við þig.
 • Þú átt erfitt með að heyra í sjónvarpinu. Þessu fylgir oft að aðrir á heimilinu kvarta yfir því að þú stillir sjónvarpið of hátt.
 • Þú átt erfitt með að heyra þegar einhver kallar á þig aftan frá eða úr fjarlægð.
 • Þú átt erfitt með samskipti í litlum hópi fólks t.d. á fundum.
 • Þú átt erfitt með samskipti í umhverfishávaða, t.d. í bíl, rútu eða í margmenni.
 • Þú þarft oft að biðja fólk að endurtaka það sem það sagði.
 • Þú heyrir ekki lengur vatnsnið eða fuglasöng.
 • Þú átt í erfiðleikum með að heyra í dyrabjöllunni og/eða símanum.
 • Fjölskyldan, samstarfsaðilar og vinir tala um að þú heyrir illa.
 • Þú þarft að lesa af vörum þegar fólk talar við þig.
 • Þú þarft að einbeita þér að heyra þegar fólk talar við þig eða hvíslar.

Þeir sem upplifa einhver þessarra einkenna, hafa oft tilhnegingu til að einangra sig. Margir forðast félagslegar samkomur og aðrar aðstæður þar sem þeir eiga erfitt með að fylgjast með því sem sagt er eða eiga á hættu að misskilja.

ORSAKIR

Orsakir heyrnarskerðingar geta verið af ýmsum toga, en hækkandi aldur og hávaði eru algengustu ástæðurnar. Því miður er sjaldnast hægt að lækna heyrnarskerðingu, en alla jafna er hægt að veita mikla hjálp með aðstoð heyrnartækja.

Í flestum tilfellum versnar heyrnin með aldrinum. Milli þrítugs og fertugs hefst skerðingin hjá flestum og við áttatíu ára aldur er rúmur helmingur fólks kominn með verulega heyrnarskerðingu.

Nokkrar aðrar þekktar orsakir heyrnarskerðingar;

 • Ákveðnir sjúkdómar og sýkingar.
 • Ákveðin heilkenni.
 • Ákveðin lyf.
 • Skemmdir á eyrum.
 • Höfuðáverkar.
 • Hindranir í eyranu.
 • Erfðafræðilegir þættir.
 • Æxli í höfði.

AFLEIÐINGAR

Heyrnarskerðing hefur margvíslegar afleiðingar. Flestir þeirra sem hafa heyrnarskerðingu upplifa viss félagsleg, sálfræðileg og líkamleg vandamál vegna heyrnarskerðingarinnar.

Það er sérstaklega ómeðhöndluð heyrnarskerðing sem getur valdið vandamálum. Sálfræðileg áhrif heyrnarskerðingar geta falið í sér skömm, einbeitingarskort, þunglyndi og lágt sjálfsálit. Líkamlegar afleiðingar geta verið höfuðverkur, vöðvaspenna, streita og háþrýstingur. Félagslegar afleiðingar sem koma fram vegna ómeðhöndlaðrar heyrnarskerðingar eru til dæmis einangrun og samskiptavandamál.

TÍÐNI

Ef gerð er heyrnargreining á stóru úrtaki fólks má reikna með að einn af hverjum sex greinist með heyrnarskerðingu sem nemur 25 dB eða meira, en það er sú skilgreining sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (World Health Organization) setur sem viðmið um heyrnarskerðingu. Um 16-17% allra fullorðinna eru með heyrnarskerðingu. Eftir því sem fólk eldist aukast líkurnar á heyrnarskerðingu til muna.

FORVARNIR

Við lifum í samfélagi þar sem hávaði er hluti af okkar daglega lífi. Þar sem eyrun eru viðkvæm líffæri er mikilvægt að vernda þau. Daglegt hljóðáreiti er í beinum tengslum við hættu á heyrnarskaða. Ráðlagður dagsskammtur hljóðs í mörgum löndum er undir 85 dB. Þrátt fyrir það verðum við oft fyrir hljóðáreiti sem fer yfir þessi mörk.

Á hverjum degi erum við í talsverðum hávaða, til dæmis í umferð, í líkamsrækt, í bíó, við íþróttaiðkun, á kaffihúsum og í vinnu. Ef hávaði er of mikill er mikilvægt að nota heyrnarvarnir. Hefðbundnir heyrnartappar vega aðeins nokkur grömm, en geta tryggt að heyrn viðkomandi verði ekki fyrir skaða. Flestir heyrnartappar draga úr hávaða sem nemur 20 til 30 dB.

Á heimilum er oft talsverður hávaði, en með varúðarráðstöfunum og breytingum er hægt að draga verulega úr hættunni á heyrnarskaða. Teppi, bólstruð húsgögn, gluggatjöld og önnur mjúk efni draga verulega úr hljóðstyrk.

MEÐHÖNDLUN

Heyrnarskerðingu er hægt að meðhöndla, en heyrnina er ekki hægt að endurskapa að fullu. Í flestum tilvikum er heyrnarskerðing meðhöndluð með heyrnartækjum. Einstaklingar með þungvæga heyrnarskerðingu eru stundum meðhöndlaðir með ákveðnum gerðum af ígræðslubúnaði og skurðaðgerðir geta læknað vissar gerðir heyrnarskerðinga.

Heyrnarskerðing er yfirleitt meðhöndluð með heyrnartækjum. Skyndilega heyrnarskerðingu verður að meðhöndla þegar í stað og felur meðferðin oft í sér notkun stera. Ef einstaklingur finnur fyrir skyndilegri heyrnarskerðingu er mikilvægt að leita til læknis eins fljótt og auðið er.

SENDA FYRIRSPURN

Athugið að ekki er um að ræða bókanir hjá háls-, nef- og eyrnalækni.